Þetta er STERF
STERF er skammstöfun fyrir Scandinavian Turfgrass and Environment Research Foundation, en sjóðurinn er samstarfsverkefni allra golfsambanda og ýmissa yfirvalda á Norðurlöndum og hefur þann tilgang að sameina og efla rannsóknastarf í þágu golfvalla og umhverfis. Hver skráður félagi í golfklúbbi innan GSÍ greiðir um 60 krónur í sjóðinn á ári, en meginmarkmið hans er að styðja við rannsóknir sem nýtast golfhreyfingunni á Norðurlöndum og senda frá sér niðurstöður á hagnýtu formi. Einnig vill STERF stuðla að virku samtali við yfirvöld og samfélag til að þróa og sýna fram á trúverðugleika og ábyrga umgengni golfhreyfingarinnar um náttúru og menningarverðmæti.
Norræn og alþjóðleg samvinna gerir okkur kleift að fá betri og meiri rannsóknaupplýsingar fyrir hverja krónu auk aðgangs að bestu mögulegu þekkingu og tækni. Þær rannsóknastofnanir, félög, sambönd og fyrirtæki sem STERF vinnur með eru leiðandi á heimsmælikvarða.
Þessi nálgun gerir STERF að einum öflugasta rannsóknavettvangi á sviði golfvallagerðar- og viðhalds. Norrænt golf er um leið að skapa sér nafn sem fyrirmynd fyrir aðra í hreyfingunni í þágu sjálfbærra starfshátta.
Hér getur þú lesið meira um STERF, verkefni á vegum sjóðsins, námskeið, fréttir o.fl. á ensku.